Samstarf

Stafræn smiðja (FAB-LAB)

Menntaskólans á Ísafirði er í samstarfi við Nýsköpunarmiðstöð Íslands, Ísafjarðarbæ og Bolungarvíkurkaupstað um uppsetningu og rekstur starfænnar smiðju. Skólinn leggur til aðstöðu og Þröstur Jóhannesson mun sinna kennslu í smiðjunni. Smiðja sem þessi er vel til þess fallin að efla nýsköpun og þróun á litlum atvinnusvæðum og getur eflt verulega möguleika íbúa til að skapa sér lífsviðurværi með eigin hugmyndum. Stafræna smiðjan mun nýtast til kennslu í hönnun og teikningu við Menntaskólann á Ísafirði. Þá munu grunnskólanemar Ísafjarðarbæjar, Bolungarvíkur og Súðavíkur fá tækifæri til að nýta sköpunargleði sína í þessari aðstöðu. Smiðjan verður einnig opin fyrir almenning og hefur Albertína Elíasdóttir verið ráðin starfsmaður til að sinna þeim hluta.

 

Erlent samstarf

Skólinn hefur verið í samstarfi við menntaskólann St. Marie du Port í bænum Les Sables d‘Olonne á vesturströnd Frakklands. Um er að ræða nemendaskiptaverkefni þar sem nemendur beggja skólanna hafa skipst á heimsóknum annað hvert ár. Að þessu sinni munu Frakkarnir koma til Ísafjarðar í október og Íslendingarnir fara utan í mars á næsta ári. Þetta hefur verið gert annað hvert ár allar götur síðan 2004.

Í maí 2011 undirrituðu MÍ og danskur verknámsskóli, EUC Lillebælt í Fredericia, samstarfssamning um nemendaskipti í verknámsgreinum. Fjórir nemendur í á lokaári í málmiðngreinum og vélvirkjun komu frá danska skólanum og dvöldu í skólanum í sex vikur s.l. haustönn. Stefnt er að því að fjórir nemendur í málmsmíði í MÍ dvelji við EUC Lillebælt nú í haust og þrír nemendur frá danska tæknislólaun munu koma hingað til dvalar í október.

 

Samstarf í námskrárgerð

Menntaskólinn á Ísafirði hefur frá árinu 2008 verið í samstarfi við Fjölbrautarskólann á Sauðárkrók, Verkmenntaskóla Austurlands og Framhaldsskólann í Vestmannaeyjum við endurskoðun og uppbyggingu á nýrri námskrá. Menntaskólinn mun í samstarfi við þessa skóla vinna að uppbyggingu framhaldsskólabrautar og einnig að því að aðlaga skólanámskránna að framhaldsskólalögum sem eiga að koma til fullra framkvæmda 2015.

 

Samstarf við fyrirtæki

Sex nemendur stunda nú nám í stálsmíði við skólann. Fyrirtækið 3X-Technology ehf. í Ísafjarðarbæ, mun sjá um kennslu tveggja sérgreina í því námi og lætur skólanum í té aðgang að húsnæði og tækjum.